Fara í efni

Þjónusta og gjaldskrá Ríkiskaupa

Stór þáttur í starfsemi Ríkiskaupa er almenn þjónusta og ráðgjöf við innkaupafólk í opinbera geiranum. Einnig bjóðum við upp á sérsniðnar lausnir, allt eftir þörfum og óskum viðskiptavina okkar.

Gjaldskrá og þjónustuskilmálar

Gjaldskrá fyrir þjónustu Ríkiskaupa.  Gildir frá 2. nóvember 2021.

Kaupandi skuldbindur sig til að greiða Ríkiskaupum fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar. 

Komi upp ágreiningur um ákvörðun við val á tilboðum milli Ríkiskaupa sem umsjónaraðila útboðs og kaupanda er heimilt að vísa ágreiningnum til ráðuneytisins.

Kaupandi ábyrgist gagnvart Ríkiskaupum greiðslu alls málskostnaðar, bótakrafna og alls annars kostnaðar sem hlotist getur, þ.m.t. vegna kæru og málaferla bæði fyrir kærunefnd útboðsmála og dómstólum, í tengslum við verkefni.

Aðildargjald rammasamninga

Ríkiskaup  gera  áskriftarsamninga við opinbera aðila, sem falla ekki undir A-hluta, um aðild að rammasamningum Ríkiskaupa s.s. sveitarfélög, félagasamtök, ohf. o.fl.  Aðildargjald að rammasamningum tekur mið af umfangi innkaupa á vöru og þjónustu hjá þeim opinbera aðila sem áskriftarsamningur er gerður við. Aðildargjaldið nemur 1,75% af veltu síðasta árs sem kemur til greiðslu er lágmarksupphæðinni 200.000 kr án vsk er náð.

Aðildargjaldið skal jafnframt endurspegla kostnað við undirbúning og rekstur rammasamninganna.

Þjónusta og ráðgjöf við útboð

Helsti tilgangur opinberra útboða er ná fram mögulegri lækkun á vörum og þjónustu til kaupenda. Í leiðinni er hvatt til virkrar samkeppni sem tryggir að seljendur fái aðgang að opinbera markaðnum, óháð því hvaða tengsl þeir kunna að hafa í stjórnkerfinu. Allir eru metnir út frá sömu forsendum jafnræðis og gagnsæis og því er seljenda hagur að opinbert útboð fari fram. Á sama hátt njóta kaupendur betri kjara, með meiri gæðum fyrir lægra verð.

Þar sem reglur um opinber innkaup eru skýrt afmarkaðar getur framkvæmd útboða verið vandasöm. Ráðgjafar Ríkiskaupa búa að áralangri þekkingu og reynslu á sviði útboðsgerðar ásamt tengdri verkefna- og samningsstjórnun. Þeir aðstoða fyrirtæki og stofnanir við val á hagkvæmum innkaupaleiðum og er markmiðið að ná farsælum árangri í sjálfu útboðsferlinu. Þar gildir einu hvort um er að ræða ráðgjöf eða verkefnastjórn útboðs í heild sinni.

Sameiginleg innkaup - rammasamningar og örútboð

Rammasamningakerfi ríkisins er einföld og hagkvæm innkaupaleið fyrir opinbera aðila. Slíkt fyrirkomulag er sérlega hentugt við öflun nauðsynlegra rekstravara eins og pappírs og ritfanga ásamt rafmagns-, kennslu-, öryggis-og tölvuvörum.

Hagkvæmni rammasamninga byggist á þeirri einföldu hugmyndafræði að margt smátt geri eitt stórt.  Samtakamáttur margra opinberra fyrirtækja og stofnana eykur kaupmátt þeirra allra og kjörin verða eins og þau gerast best.

Þjónusta og ráðgjöf við innkaup

Til að tryggja samkeppni og jafnræði á milli seljenda gilda ákveðnar reglur um innkaup fyrir fé skattgreiðenda. Í því tilliti er hlutverk hins opinbera kaupanda að láta hagkvæmnissjónarmið ávallt ráða ferðinni. 

Ein af meginstoðum Ríkiskaupa frá upphafi er að ástunda öfluga ráðgjöf og þjónustu á sviði innkaupa. Hér er m.a. um að ræða verðkannanir, innkaupa-, innflutnings- og tollþjónustu í kjölfar útboðs ásamt innkaupagreiningu og margvíslegri ráðgjöf. 

Innkaupastarf Ríkiskaupa er byggt á áralangri þekkingu á öflun, innflutningi, afgreiðslu og samningagerð.

Lögfræðiráðgjöf

Innkaup opinberra aðila eru háð lagasetningum og ýmsum reglugerðum þar að lútandi og leitast þeir við að fylgja þeim í hvívetna. Stundum geta komið upp álitamál og vafaatriði sem krefjast túlkunar lögfræðinga. Í slíkum tilfellum kemur til kasta lögfræðisviðs Ríkiskaupa sem veitir sérhæfða, lagalega ráðgjöf varðandi opinber innkaup. Álitsgerðir Ríkiskaupa um öll möguleg vafaatriði varðandi tiltekin innkaup eru unnar með tilvísan til laga og reglna um hvert mál fyrir sig.

Sala opinberra eigna og muna

Ríkiskaup annast söluferli jarða og fasteigna í eigu ríkisins en meðfram því er einnig um að ræða sölu á notuðum vélum, húsgögnum og farartækjum.

Námskeið og fræðsla

Eitt af veigamestu hlutverkum Ríkiskaupa er að fræða og upplýsa kaupendur jafnt sem seljendur um allt sem viðkemur opinberum innkaupum, útboðum, rammasamningum og eignasölum. Í boði eru margvísleg námskeið og vinnustofur fyrir kaupendur jafnt sem seljendur. Á vef Ríkiskaupa geta kaupendur fundið hagnýtar upplýsingar um hvaðeina sem lýtur að innkaupum á vöru og þjónustu.

Uppfært 28. mars 2023