Fara í efni

Áður en keypt er inn

Í innkaupastefnu ríkisins er kveðið á um að vistvæn innkaup ríkisaðila séu almenn regla.

Við val á besta kosti við innkaup þarf að hafa eftirfarandi í huga :

 • Uppfyllir varan eða þjónustan þörfina sem hún á að uppfylla?
 • Hver er líftímakostnaðurinn?
 • Hvaða vara eða þjónusta er best út frá umhverfissjónarmiði?

Til að meta hvað er best út frá umhverfissjónarmiði:­

 • Velja umhverfisvottað:
  Vara eða þjónusta með áreiðanlegu umhverfismerki er trygging neytenda fyrir því að hún skaði umhverfið minna en aðrar sambærilegar vörur eða þjónusta.
  Ef um þjónustu er að ræða er mælt með að velja fyrirtæki sem er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi ef kostur er. Athugið að hið síðastnefnda á aðeins við um þjónustu en ekki vörur. Ekki er leyfilegt að merkja vörur með merki ISO 14001 þar sem það segir ekkert um eiginleika vörunnar.
  - Um umhverfismerki á vef Umhverfisstofnunar
 • Velja samkvæmt gátlistunum:
  Ef til er umhverfisgátlisti fyrir vöruna fylgið þeim, umhverfisskilyrði ESB.
 • Nota skynsemina:
  Ef ekki er hægt að kaupa umhverfisvottað og enginn gátlisti er fyrir hendi, ætti einkum að velja vörur sem eru með góða orkunýtni, hafa verið fluttar styttri vegalengdir, leiða til minni efnanotkunar og/eða eru í litlum umbúðum.

5 atriði til að hafa í huga áður en keypt er inn:

 • Hvað þarf?
  Dæmi: Íslenskt ræstingafyrirtæki fækkaði ræstiefnum úr tólf í fjögur án þess að slá af gæðakröfum. 
 • Þarf að kaupa nýtt?
  Með því að nota vöru sem lengst má auka virði þess sem keypt er. Oft er hægt að lagfæra/uppfæra það sem fyrir er.  Ríkiskaup hafa t.d. gert tímabundið samkomulag við Efnisveituna ehf. um sölu lausafjármuna (annarra en bifreiða og sumarhúsa) þar sem kaupa má ýmsa notaða muni.  
  Um hringrásarhagkerfið á vef Umhverfisstofnunar
 • Hve lengi á varan að endast?
  Það getur verið bæði umhverfisvænt og hagkvæmt að kaupa endingargóðar vörur sem auðvelt og ódýrt er að reka, viðhalda eða lagfæra.
 • Er hægt að fara betur með það sem til er?
  Oft má nýta betur og lengja líftíma tækja með réttri notkun. Til dæmis stilla prentskipanir þannig að prentað sé báðu megin og tvær síður á hverja hlið.  Einnig er hægt að velja orkusparandi stillingar sem minnka notkun á rafmagni.
 • Er hægt að velja allt aðra lausn?
  Það getur verið hagstæðara að kaupa þjónustu en vöru. Ýmsa hluti, s.s. bíla og tæki, er hægt að leigja og gera má þjónustusamninga s.s. varðandi prentun, þrif og leigubíla. Þannig má minnka útgjöld með óþarfa fjárfestingum og um leið velja umhverfisvænni leið. 

Þegar þörfin fyrir innkaup liggur ljós fyrir er komið að því að spyrja seljendur og velja síðan besta kostinn.

Uppfært 18. ágúst 2021