Fara í efni

Jafnréttissjónarmið Ríkiskaupa

Jafnréttissjónarmið starfsmannastefnu Ríkiskaupa er ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna, jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla innan stofnunarinnar. Jafnréttissjónarmiðin byggja á lögum nr 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu Ríkiskaup samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Skal þar m.a. sérstaklega kveðið á um markmið og gerð áætlun um hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. laganna. Jafnréttissjónarmið starfsmannastefnunar eru endurskoðuð á þriggja ára fresti.

Laus störf óháð kyni

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla standa öll störf sem auglýst eru til umsóknar hjá stofnuninni jafnt konum sem körlum til boða.

Starfsþjálfun og endurmenntun

Í samræmi við 20. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru starfsmenn, jafnt konur sem karlar eru hvattir til að afla sér sí- og endurmenntunar sem ætla verður að geti nýst í starfi, sæki ráðstefnur og fræðslufundi.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gerir forstjóri nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Starfsmenn eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, þótt almennt sé gerð krafa um viðveru á opnunartíma stofnunarinnar. Stofnunin leitast við að gera bæði konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Kynbundið ofbeldi eða áreitni, kynferðisleg áreitni og einelti

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skal forstjóri gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Kynbundið ofbeldi, kynbundið áreitni eða kynferðisleg áreitni er óheimil með öllu hjá Ríkiskaupum. 

Launakjör

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 10/2008 og öðrum lögum og kröfum sem gerðar eru um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu konum og körlum er vinna hjá stofnuninni vera greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun eru ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun fela ekki í sér kynjamismunun.

Starfsmönnum er ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo. Stjórnendur stofnunarinnar skuldbinda sig til að vinna að stöðugum umbótum, eftirliti og viðbrögðum í samræmi við kröfur jafnlaunakerfisins. Komi í ljós óútskýrður launamunur á jafn verðmætum og sambærilegum störfum skal hann leiðréttur sé ekki hægt að rökstyðja hann á málefnalegum grundvelli stofnanasamninga.

Uppfært 19. janúar 2021