Fara í efni

Opinber innkaup í neyðarástandi

Í neyðarástandi eru ákveðnar heimildir í lögum um opinber innkaup (OIL) til þess að bregðast fljótt við og stytta boðleiðir þegar brýn nauðsyn er til að flýta innkaupum.

Ýmsar leiðir eru færar:

 1. Örútboð innan rammasamninga geta tekið stuttan tíma.
  Ef rammasamningur er fyrir hendi getur verið fljótlegt að fara í örútboð og heimilt er í neyðarástandi að setja mjög stutta fresti til afhendingar.

 2.  Innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum um útboðsskyldu.
  Þurfa ekki langan fyrrivara.  Hér er um að ræða innkaup  sem eru undir viðmiðunarmörkum um útboðsskyldu og ekki innan rammasamnings. Þá þarf ekki að fara eftir mjög formlegum leiðum við innkaupin sbr. 24. gr. OIL.

 3. Hraðútboð. 
  Í 58. gr. og 59. gr. OIL segir að ef brýn nauðsyn krefjist þess að hraða þurfi útboði sé kaupanda heimilt að víkja frá þeim frestum sem greindir eru í ákvæðum þessum. Frestur til að skila tilboðum skal þó aldrei vera skemmri en 7 dagar. Sjá nánari útfærslu í framangreindum ákvæðum.

 4. Ófyrirsjáanleg atvik – viðbót við gildandi samninga – 90. gr. OIL
  Samkvæmt b. og c. lið 90. gr. OIL er heimilt að gera viðbótarsamning við gildandi samning/rammasamning þegar skyndileg þörf kemur upp vegna ófyrirsjáanlegra atvika. Verðmæti viðbótarsamnings skal ekki nema hærri fjárhæð en helmingi af upphaflegri samningsfjárhæð ef hún var yfir evrópskum viðmiðunarfjárhæðum. Ef kaupandi ákveður að breyta samningi í samræmi við þau skilyrði sem koma fram í b- og c-lið 1. mgr. skal birta opinbera tilkynningu efnis að breyting hafi verið gerð á samningi.

 5. Aðkallandi neyðarástand – 39. gr. OIL
  Samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar eru heimil án tillits til þess hvort um er að ræða innkaup á verki, vöru eða þjónustu þegar innkaup eru algerlega nauðsynleg vegna aðkallandi neyðarástands sem stafar af ófyrirsjáanlegum atburðum og ekki er unnt að standa við fresti í almennu útboði, lokuðu útboði eða samkeppnisútboði. Þær aðstæður sem vísað er til sem aðkallandi neyðarástands mega ekki vera á ábyrgð kaupanda.

Tilkynningar um samningsgerð
Athugið að allar undantekningar frá almennum reglum eru túlkaðar þröngt. Meginreglur um val á innkaupaferli eru í 33. gr. OIL. Þótt samningur sé gerður án auglýsingar vegna neyðarástands, ber að tilkynna um gerð samninga yfir EES-viðmiðunarfjárhæðum skv. 84. gr. OIL að samningsgerð lokinni með rökstuðningi fyrir því af hverju undanþáguákvæði var notað. Sjá 4. gr. rgj. 955/2016.

Ríkiskaup aðstoða opinbera aðila við að meta hvort framangreind skilyrði eiga við um innkaupin. Að lokum er það kærunefndar útboðsmála og dómstóla að meta hvort heimilt var að nýta undanþágur vegna neyðarástands. Mikilvægt er að kaupendur kynni sér vel ákvæði laga um þau úrræði sem beitt er hverju sinni.

Uppfært 30. nóvember 2020