Fara í efni

Svein­björn til liðs við ný­sköp­un­ar- og við­skipt­a­þró­un­ar­svið

Sveinbjörn Ingi Grímsson hefur verið ráðinn á svið nýsköpunar og viðskiptaþróunar hjá Ríkiskaupum. Hlutverk hans verður að aðstoða opinberan aðila og birgja við að ná fram aukinni skilvirkni og skapa nýtt virði í innkaupum með því að koma hugmyndum að nýsköpun og umbótum í framkvæmd.

Undanfarin ár hefur Sveinbjörn sinnt ráðgjöf og þjónustu við stofnanir, sveitarfélög, ráðuneyti og fyrirtæki á sviði framtíðarfræða og breytingastjórnunar. Þá hefur hann einnig reynslu af innleiðingarvinnu á tækninýjungum og margvíslegu markaðsstarfi og verkefnastjórnun.

Sveinbjörn hefur starfað sem ráðgjafi hjá KPMG um árabil og unnið þar með stórum og smáum sveitarfélögum við sviðsmyndagreiningar og sameiningaviðræður. Hann hefur stýrt heildrænni stefnumótun ríkisstofnana og er kunnugur staðháttum á opinberum vettvangi.

Áður en Sveinbjörn tók upp ráðgjafahattinn nam hann viðskiptafræði í Bandaríkjunum við Birmingham Southern College og síðar við Háskólann í Reykjavík. Lokaverkefni hans í HR fjallaði um víddir endurgjafarmenningar og hvað þyrfti til að rækta og viðhalda uppbyggilegri og einlægri endurgjafarmenningu á vinnustaðnum.

Sveinbjörn er kvæntur Bjarteyju Ágústsdóttur flugmanni og saman eiga þau dótturina Vögnu Sveinbjörnsdóttur.

Sveinbjörn Ingi Grímsson:

„Það eru einstaklega spennandi tímar fram undan innan veggja Ríkiskaupa. Það heyrist langar leiðir að þar sé verið að undirbúa miklar umbætur og það er ein stærsta ástæðan fyrir því að ég sótti um – ég vil vera með þeim í liði og taka þátt í þessari vegferð.“

Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa:

„Ríkiskaup munu á næstu misserum setja aukinn kraft í að styðja við ríkisstofnanir og sveitarfélög í nýsköpun á öllum sviðum, einkum í gegnum opinber innkaup. Þar liggja gríðarleg tækifæri og við erum ánægð og stolt af því að fá jafn fjölhæfan og reyndan mann og Sveinbjörn til liðs við okkur til að keyra þessi verkefni áfram.“

Íslenska ríkið kaupir vörur og þjónustu fyrir yfir 200 milljarða árlega og eru þar ótalin innkaup sveitarfélaga og annarra opinberra aðila. Hlutverk Ríkiskaupa er að stuðla að sem mestri hagkvæmni í öflun aðfanga til ríkisrekstrar með áherslu á virka samkeppni, jafnræði og nýsköpun.