Fara í efni

Sameiginlegt örútboð ríkisins á rafbílum haustið 2021

Ríkiskaup áætlar að fara í sameiginlegt örútboð á rafbílum í haust. Farið var í slíkt örútboð síðasta vetur og stefnt er að því að stór hluti af innkaupum ríkisaðila á bifreiðum fari fram í sameiginlegum innkaupum.

Stjórnvöld hafa sett fram markmið til samræmis við stefnu Íslands í loftslagsmálum og framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Eitt af þeim er að hlutfall skráðra nýorkubifreiða af nýskráningum skuli hafa náð 60% árið 2025 (sjá fjármálaáætlun 2021-2025 og aðgerðaráætlun í loftslagsmálum frá árinu 2020)

Stjórnvöld leggja því ríka áherslu á að hraða orkuskiptum í samgöngum og skulu ríkisaðilar ganga á undan með góðu fordæmi. Þeir hafa því verið skyldaðir til að kaupa eingöngu vistvænar bifreiðar (nýorkubifreiðar) nema öryggis- eða notkunarkröfur krefjist annars. Í dag eru vistvænar bifreiðar aðeins 10% bílaeignar ríkisaðila samkvæmt greiningu fjármálaráðuneytisins. Hlutfall nýskráninga vistvænna bifreiða hefur aukist verulega á undanförunum árum sem gefur vonir um að markmiðum stjórnvalda um 60% nýskráninga þeirra árið 2025 verði náð með samstilltu átaki.

Framboð rafbíla jókst mikið á síðasta ári og er búist við álíka aukningu á framboði í ár, þannig að hægt verði að bjóða upp á fleiri flokka rafbíla. Síðasta vetur var farið í örútboð á tveimur flokkum þ.e. smábílum og meðalstórum bílum og var þeim síðan skipt upp í meðaldrægni að lágmarki 250 km/pr. hleðslu og svo mikil drægni að lágmarki 350 km./pr. hleðslu. Fyrirhugað er að bæta við flokkum og bjóða einnig upp á jepplinga 4x4 (18 cm. undir lægsta punkt), millistóra fólksbíla 4x4 og sendibíla. Það sem hefur verið að gerast í þróun rafbíla er það helst að drægnin hefur verið að aukast og jafnast drægni orðið á við hefðbundinn jarðefnaeldsneytisbíl, svo hefur hleðslutími styst og þá sérstaklega tæknilegur búnaður rafbíla til að taka hraðhleðslu. Búið er að loka hringnum í kringum landið með hleðslu- og hraðhleðslustöðvum og er dekkun á höfuðborgarsvæðinu orðin mjög góð.

Nú er hægt að fá hraðhleðslu 80% á 15 – 30 mín og er gert ráð fyrir að sá tími muni styttast enn frekar þegar fram í sækir.

Þegar rafbílar verða keyptir í gegnum þetta sameiginlega örútboð ríkisins þarf ekki að senda inn umsókn um bifreiðakaup til bílanefndar ríkisins. Skuldbindandi þátttökutilkynning frá stofnunum í lok sumars eða í haust jafngildir samþykki nefndarinnar. Stofnanir munu þá þurfa að velja rafbíla í einhverjum af þeim flokkum sem þeim hentar og í boði verða.

Líkt og í síðasta örútboði verður afhendingartími bíla í síðasta lagi 20 vikum frá töku tilboðs, þannig að bílaumboðin hafi svigrúm til að flytja þá til landsins svo og að kaupendur geti tekið við þeim á hentugum tíma.