Fara í efni

Keðjuábyrgð

Síðustu áramót tóku gildi breytingar á lögum um opinber innkaup sem fela í sér að aðalverktaki skal tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni.

Sú skylda er lögð á opinbera aðila sem bjóða út verkframkvæmdir eða kaupa með öðrum hætti, að gera grein fyrir ábyrgð aðalverktaka í útboðsgögnum. Í lögunum kemur einnig fram að kaupanda er heimilt að greiða vangoldnar verktakagreiðslur til undirverktaka og annarra starfsmanna, sem svara til launatengdra greiðslna, á kostnað aðalverktaka standi hann ekki í skilum með slíkar greiðslur að því gefnu að heimild þar að lútandi sé tilgreind í útboðsgögnum, að verk sé í nánu og eðlilegu samhengi við opinberan samning sem undirverktaka er ætlað að framkvæma fyrir aðalverktaka og að kröfum sé beint til verkkaupa innan fjögurra mánaða frá því að þær gjaldféllu.

Framangreind breyting er lögfest í 88. gr. a) laga um opinber innkaup. Af þessu tilefni hefur fjármálaráðuneytið gefið út leiðbeiningar sem nálgast má hér.

Samtök iðnaðarins munu standa fyrir fræðslu fyrir aðalverktaka 17. febrúar næstkomandi en tilkynning um það verður birt á vefsíðu SI.