Fara í efni

Grundvöllur auglýsingar um sameiginlega kynningarherferð stjórnvalda og atvinnulífs um að verja störf og auka verðmætasköpun

Eftir að auglýsing Ríkiskaupa um sameiginlega kynningarherferð stjórnvalda og atvinnulífs um að verja störf og auka verðmætasköpun birtist á útboðsvefnum hafa ýmsir aðilar beint spurningum til Ríkiskaupa um hvers vegna auglýsingin er ekki birt á Evrópska efnahagssvæðinu og hvers vegna ekki er um eiginlegt útboð að ræða þótt fjárhæðin fari yfir viðmiðunarmörk um útboðsskylda þjónustu á EES sem eru í dag 18.120.000 kr. og 15,5 mkr. innanlands.

Hið rétta er að þjónusta þessi fellur undir 8. kafla laga um opinber innkaup (OIL) og er því ekki útboðsskyld fyrr en fjárhæðin nær 97.770.000. kr. sbr. upplýsingar um viðmiðunarfjárhæðir á vefsíðu Ríkiskaupa. Slík þjónusta var áður undanþegin lögum um opinber innkaup en það breyttist árið 2016 þegar nýjar tilskipanir um opinber innkaup voru innleiddar á Íslandi.

Á vefsíðu Ríkiskaupa eru upplýsingar um innkaup á sértækri þjónustu sem kallast „létta leiðin“ (e. light regime) í daglegu tali innkaupafólks. Þessi innkaupaleið kallast létta leiðin því að viðmiðunarfjárhæðir um útboðsskyldu eru hærri, valforsendur eru mun sveigjanlegri og flestar formkröfur laganna eiga ekki við um þennan kafla.

Í þessu tilfelli er um blandaðan samning að ræða, þar sem í verkefninu eru einnig verkþættir t.d. grafíkvinna og birtingar, sem ekki flokkast sem sértæk þjónusta. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. OIL skal í slíkum tilvikum velja innkaupaleið sem gildir um þann þjónustuþátt samningsins sem áætlaður er verðmætari. Hér er því um að ræða sértæka þjónustu sem er ekki útboðsskyld á EES-svæðinu þegar verkefnið er undir 97.770.000 eins og fram hefur komið.