Fara í efni

Gagnaþon Ríkiskaupa fer fram í fyrsta sinn 16.-19. október

Gagnaþon Ríkiskaupa 2023
Gagnaþon Ríkiskaupa 2023

Dagana 16. til 19. október fer fram fyrsta Gagnaþon Ríkiskaupa í samstarfi við HÍ, HR og Reykjavíkurborg.

Markmiðið er að knýja fram nýskapandi sparnaðarlausnir með því að nýta söguleg innkaupa- og fjárhagsgögn ríkisins og Reykjavíkurborgar við að skapa sparnað í opinberum rekstri. Með þessum hætti er bæði hægt að margfalda verðmæti fyrirliggjandi gagna og bæta gagnsæi í opinberum rekstri samhliða því að nota hugvit og nýskapandi lausnir við að spara peninga í ríkisrekstrinum.

Nemendum gefst hér tækifæri á að sýna færni sína, stækka tengslanetið og kynnast því hvernig nokkur af stærstu fyrirtækjum landsins skapa aukið virði með gögnum. Origo, Marel og Íslandsbanki munu deila sínum gagnavegferðum og skipa einnig dómnefnd gagnaþonsins.

Keppt verður í þremur mismunandi flokkum og vegleg verðlaun eru í boði fyrir bestu lausnirnar í hverjum flokki:

  • Besta tækifærið til sameiginlegra innkaupa út frá hagkvæmni
  • Mesti sparnaðurinn
  • Besta framsetning á gögnum

Skilyrði fyrir þátttöku er að hafa náð 18 ára aldri, vera í háskólanámi eða hafa lokið háskólanámi á sl. 12 mánuðum. Allt frá einstaklingum upp í fimm nema teymi geta skráð sig til leiks. Fyrri reynsla í forritunarmálum er ekki nauðsynleg til að taka þátt. 

Smellið hér fyrir nánari upplýsingar á Facebook viðburðinum 

Smellið hér til að skrá þátttöku

Við erum líka að leitast eftir því að stækka net samstarfsaðila gagnaþonsins. Ef fleiri gagnadrifin fyrirtæki hafa áhuga á að standa að gagnaþoninu með einum eða öðrum hætti má hafa samband við Gísla Ragnar Guðmundsson, verkefnastjóra gagnaþonsins (gisli@rikiskaup.is).