Fara í efni

Gagn og gaman á Innkaupadegi Ríkiskaupa

Við erum saman í liði! Marteinn Mosdal og Halldór Ólafur Sigurðsson forstjóri Ríkiskaupa.
Við erum saman í liði! Marteinn Mosdal og Halldór Ólafur Sigurðsson forstjóri Ríkiskaupa.

Ýmis fróðleg erindi voru í boði á Innkaupadegi Ríkiskaupa og tókst viðburðurinn vel í alla staði. Ríkiskaup þakka öllum sem tóku þátt fyrir frábæra dagskrá og góða aðsókn en salurinn í Kaldalóni í Hörpu var þéttsetinn þennan dag.

Halldór Ó. Sigurðsson forstjóri Ríkiskaupa fjallaði um áherslur Ríkiskaupa og fór aðeins yfir söguna í tilefni af 70 ára afmæli stofnunarinnar og opnaði að lokum nýjan vef Ríkiskaupa.

Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, fjallaði um áherslur Ríkisstjórnarinnar varðandi opinber innkaup og helstu stefnumál, m.a. varðandi nýja starfseiningu (miðlæga innkaupaeiningu) sem mælt er fyrir um í frumvarpi til breytinga á lögum um opinber innkaup. Þar er fyrirhugað að ný stofnun hafi ýmis fleiri verkefni á sinni könnu en opinber innkaup og það hafi samlegðaráhrif.

Anders Stribolt, aðstoðarforstjóri SKI – Innkaupastofnunar ríkis og sveitarfélaga í Danmörku, lýsti því hvaða áherslum er stefnt að í framtíðinni í opinberum innkaupum í Danmörku.

Hildur Sif Arnardóttir verkefnisstjóri og Karl Friðriksson forstöðumaður Nýsköpunarmiðstöðvarinnar sögðu frá Nýsköpunarmóti sem er nýr vettvangur fyrir kaupendur og seljendur til að stuðla að nýsköpun í opinberum innkaupum.

Skúli Magnússon dómari og formaður kærunefndar útboðsmála fjallaði um helstu úrskurði á sviði opinberra innkaupa sl. ár og kvaddi að leiðarlokum þar sem hann er að hætta störfum fyrir kærunefnd útboðsmála.

Dagmar Sigurðardóttir sviðsstjóri lögfræðisviðs Ríkiskaupa fór yfir réttarrúrræði sem fyrirtæki geta gripið til ef þau telja að opinber aðili sé ekki að kaupa inn í samræmi við lög um opinber innkaup.

Bryndís Gunnlaugsdóttir lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fjallaði um þær breytingar sem taka gildi í opinberum innkaupum sveitarfélaga í lok maí næstkomandi og áskoranir og tækifæri sem þeim fylgja.

Guðrún Birna Finnsdóttir teymisstjóri rammasamningateymis kynnti nýtt útboðskerfi Ríkiskaupa, Tendsign, og hvernig rafræn útboð og innkaup fara fram.

Að lokum fjallaði Berglind Ragnarsdóttir frá verkefnastofu fjármála- og efnahagsráðuneytis um stafrænt Ísland um sannvottunarkerfið sem notað verður til að staðfesta hvort útilokunarástæður laga um opinber innkaup eiga við um fyrirtæki sem senda inn tilboð í opinberum innkaupum og hvernig það kerfi kallast á við samevrópsku hæfisyfirlýsinguna (ESPD) sem bjóðendur senda inn með tilboðum sínum.

Anna Svava Knútsdóttir leikkona og fundarstjóri og Marteinn Mosdal (Laddi) sáu til þess að viðburðurinn hafði skemmtilegt yfirbragð. Er þeim og ProEvents sem sá um viðburðarstjórnun þakkað kærlega fyrir þeirra framlag.

Á meðfylgjandi myndum má sjá fyrirlesara og aðra þátttakendur í Innkaupadeginum. Það er von Ríkiskaupa að allir gestir hafi haft gagn og gaman af þessum degi eins og starfsfólk Ríkiskaupa og er öllum þátttakendum þakkað fyrir komuna.