Fara í efni

Endurteknar rangfærslur um útboðið „Ísland saman í sókn“

Umfjöllun fjölmiðla í dag um kæru á hendur Ríkiskaupa vegna nýafstaðins útboðs um kynningarherferðina „Ísland saman í sókn“ (e. Destination Iceland) fela í sér rangfærslur sem stofnunin telur ástæðu til að leiðrétta. Viðmælendur fjölmiðla eru fulltrúar fyrirtækis sem urðu í öðru sæti bjóðenda í nefndu útboði. Meðal þess sem er enn haldið á lofti er meint mismunun vegna virðisaukaskattsmála og meint brot hlutskarpasta bjóðanda og vanhöld á rannsóknarskyldu Ríkiskaupa. Þá hafa viðmælendur vegið alvarlega að heiðri dómnefndar með efasemdum um val í nefndina, heilindi hennar og skort á upplýsingum um bjóðendur fyrir matið á faglegum hluta útboðsins. Eins og Ríkiskaup hafa útskýrt í fjölmiðlum og upplýst er með dæmum á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis þá er virðisaukaskattur hlutlaus og hefur ekki áhrif á verðmyndum í útboðum hvort sem þjónusta er keypt innan- eða utanlands. Staðhæfingar um annað eru byggðar á misskilningi.

Gagnrýnt hefur verið að tilboð alþjóðlegu auglýsingastofunnar M&C Saatchi, sem er í samstarfi við íslenskt fyrirtæki, hafi orðið fyrir valinu vegna frétta um meint bókhaldsbrot fyrirtækisins. Rétt er að geta þess að tilboð í útboðinu eru valin út frá fyrirframgefnum valforsendum og hæfniskröfum sem fram koma í útboðsgögnum og eru í samræmi við íslensk lög. Fyrirtækið stóðst allar hæfiskröfur útboðsgagna og lagði fram gögn til staðfestingar. Ríkiskaupum ber skylda til þess að staðfesta að útilokunarástæður 68. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 eigi ekki við um fyrirtækið áður en endanlegur samningur er gerður. Lögin heimila ekki að ákvarðanir um val á bjóðendum byggi á fréttaflutningi heldur á staðreyndum og staðfestingum opinberra aðila um að bjóðandinn uppfylli hæfiskröfurnar.

Þá er í viðtali við fjölmiðla vegið að heiðri dómnefndarinnar með ásökunum um tengsl ónefnds nefndarmanns við M&C Saatchi. Er gefið í skyn að hann hafi þess vegna gefið fyrirtæki viðmælanda lægri einkunn sem hafi ráði úrslitum um endanlegt val. Þessi staðhæfing er algjörlega tilhæfulaus. Þá hefur nefndur viðmælandi haldið því fram að ef dómnefndin hefði vitað af fyrrnefndri fjölmiðlaumfjöllun um meint brot M&C Saatchi hefði það haft áhrif á einkunnagjöf nefndarinnar. Hlutverk hennar var eingöngu að leggja faglegt mat á kynningar bjóðenda á grundvelli fyrirliggjandi valforsenda. Óheimilt er með öllu að víkja frá því. Slíkt hefði brotið gegn fjölmörgum meginreglum laga um opinber innkaup.

Hlutverk Ríkiskaupa er að gæta þess að opinberir kaupendur fylgi ákvæðum laga um opinber innkaup og þeim kröfum sem settar eru fram í útboðsgögnum hverju sinni. Markmið laganna er að tryggja jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni. Í þessu útboði var öllum þessum markmiðum fylgt. Óánægðir bjóðendur hafa vettvang hjá kærunefnd útboðsmála til að fá úr því skorið hvort þeir hafi verið beittir ranglæti eða ekki.