Fara í efni

Nýsköpun er val í opinberum rekstri

Opinber innkaup hafa áhrif á okkar daglega líf á ótal vegu. Vegirnir sem við ökum um, sjúkrahúsin sem við notum á okkar viðkvæmustu tímum, skólakerfið sem eflir unga fólkið okkar og þjónustuvefir hins opinbera sem leiða okkur um völundarhús stjórnsýslunnar eru dæmi um verðmæti sem verða til með opinberum innkaupum. Innkaup ríkisins á framkvæmdum, vörum og þjónustu nema um 200 milljörðum króna á ársgrundvelli. Því mikla umfangi fylgir það frumskilyrði að hámarka virði fjárfestingarinnar almenningi til hagsbóta.

En hvernig náum við tilsettu markmiði þegar lausnin sem kaupandinn leitast eftir er hreinlega ekki til á markaði?

Í eðli sínu snúast hefðbundin opinber innkaup um að kaupandi skilgreini ítarlegar kröfur um þá þjónustu, vöru eða framkvæmd sem fyrirtæki á markaði nota til tilboðsgerðar fyrir verkefnið. Í þeim tilvikum þegar þörf kaupandans felst í lausn sem er ekki til á markaði getur reynst erfitt að ná fram væntu virði með hefðbundnum innkaupaleiðum. Fyrirtæki geta með engu móti gert raunhæf tilboð í það sem á eftir að finna upp og kaupendur eiga í erfiðleikum með að færa í orð að hverju þeir leita og hvaða væntingar þeir hafa til afurðarinnar. Við aðstæður sem þessar er mikilvægt að nota víðtækari innkaupaleiðir sem fela í sér nýsköpun.

Stofnunum og fyrirtækjum stendur til boða að fara í nýskapandi innkaup í dag

Tækifæri til nýsköpunar leynast víða. Heimsfaraldurinn sparkaði upp dyrum í atvinnulífinu sem almennt var talið að yrðu harðlæstar um ókomna tíð. Störf án staðsetningar sem dæmi, sem virtust fjarstæð framtíðarmúsík fyrir aðeins tveimur árum síðan, eru orðin að viðteknu normi hjá vinnuveitendum. Í dag eru fyrirtæki í óða önn að aðlaga sína starfsemi að breyttum veruleika og frumlegar hugmyndir fá byr undir báða vængi í slíku umhverfi.

Veggurinn sem góðar hugmyndir að nýsköpun lenda oft á er að lausnin er ekki til eða á langt í land með að fullnægja þörfum markaðarins. Góðu fréttirnar eru að til er farvegur fyrir slíkar hugmyndir sem glæðir þær lífi með virku samtali við sérfræðinga og þróunaraðila. Þessi farvegur, eða innkaup á nýsköpunarverkefni, stendur öllum til boða að taka þátt í.

Með nýsköpunarsamstarfi er formerkjum hefðbundinna útboða um samskipti kaupenda og seljenda í raun snúið við og báðum aðilum gefst færi á að þroska viðræður um fyrirhuguð innkaup. Fyrir stafni er að skapa nýjung sem mætir væntingum kaupanda og gefur fyrirtækjum tækifæri á að skilja betur þarfir kaupandans og nýta krafta sína á sviði þróunar til fulls.

Fyrir umfangsmikil nýsköpunarverkefni sem kalla á sérsmíði á vöru eða hugbúnaði getur einnig komið sér vel að bjóða fyrst út þróun á frumgerð sem undanfari á endanlegum innkaupum á lokaafurðinni.

Fjármagnið býður eftir þinni hugmynd

Á síðustu misserum hafa stjórnvöld lagt mikla áherslu á að beita nýsköpun við að mæta samfélagslegum áskorunum samtímans þar sem kröfur um aukna skilvirkni, sjálfvirkni og sjálfbærni eru í fyrirrúmi. Skýr merki um að full alvara standi að baki tilmælanna gerðu t.d. vart við sig í desember sl. þegar Tækniþróunarsjóður veitti yfir 3 milljarða króna í 146 nýskapandi verkefni, en það er lang stærsta úthlutunin í sögu sjóðsins. Fyrr í þessum mánuði fór líka fram úthlutun úr Aski-mannvirkjarannsóknarsjóði sem veitti alls 95 milljónir króna í rannsóknar- og nýsköpunarstyrki til 23 verkefna.
Þessir sjóðir og fleiri senda sterk skilaboð til stofnana og fyrirtækja um að nýsköpun er svo sannarlega á boðstólnum fyrir góðar hugmyndir. Allt sem þarf er að leyfa sér að dreyma og nota nýskapandi innkaupaleiðir til að hámarka virði hugmyndanna.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 30.03.2022.
Höf. Sveinbjörn Ingi Grímsson, sérfræðingur á nýsköpunar- og viðskiptaþróunarsviði.