Fara í efni

Nýr rammasamningur um Almenn matvæli í vinnslu

Mynd Mariana Kurnyk
Mynd Mariana Kurnyk

Endurskoðun á samningi um almenn matvæli er nú í fullum gangi með breyttum áherslum og nýju verklagi en núverandi samningur rennur út í júní.

Greiningarvinna við eldri samning er yfirstandandi, þar sem kaupgögnum síðustu fjögurra ára hefur verið safnað og neyslumynstur ríkisstofnanna greint. Næstu skref eru svo að kalla eftir endurgjöf frá helstu kaupendum innan samnings og munu niðurstöður þessarar vinnu leggja línur við gerð nýs samnings.

Það var margt skemmtilegt sem kom í ljós við það að greina einstaka vöruflokka innan samningsins. Árið 2022 keypti hið opinbera t.d. rúsínur og sveskjur fyrir rúmar 7,8 mkr. í flokknum ávextir/ber og grænmeti. Í flokknum brauð/bökunarvörur og kornmeti, var morgunkornið vinsæl vara og keyptu aðilar innan samningsins morgunkorn fyrir rúmar 10,9 mkr og hrökkbrauð fyrir 3,2 mkr.

Sem liður í að halda landinu uppréttu og gangandi keypti hið opinbera svo kaffi fyrir rúmar 87,5 mkr og g-mjólk fyrir 3 mkr. Einungis 1 mkr. var eytt í súkkulaði sem einhverjum gæti þótt sláandi lág upphæð.