Fara í efni

Kynningarfundur um fyrirhugað útboð á tjónamálakerfi Náttúruhamfaratryggingar Íslands

Samtal við markaðinn um mögulega lausn

Náttúruhamfaratrygging Íslands (kaupandi) er að undirbúa fyrirhugað útboð á mótun og gerð á tjónamálakerfi fyrir stofnunina (afurð). Markaðskönnun þessi felst í að óska eftir aðkomu áhugasamra fyrirtækja á markaði í undirbúningsferli verkefnisins.

Áhugasömum aðilum verður boðið á kynningarfund (fjarfund) fimmtudaginn 9. júní 2022 kl. 11:00-12:30 um þarfagreiningu verkefnisins og væntingar kaupanda til afurðarinnar. Í kjölfar kynningarinnar verður boðið upp á samtal um hentugar lausnir á markaði, þörf á aðlögun eða samspili lausna eða þróun á nýrri lausn að þörfum kaupanda.

Afurðin í hnotskurn

Tjónamálakerfið er hjartað í starfsemi NTÍ og gerir stofnuninni kleift að uppfylla hlutverk sitt sem vátryggingaraðili náttúruhamfara. Kerfið heldur utan um tilkynningar, tjónamál og vinnslu þeirra. Vegna eðli náttúruhamfara eru miklar sveiflur í starfseminni og því er mikilvægt að kerfið auðveldi og flýti fyrir vinnslu tjónamála þegar stórir tjónsatburðir eiga sér stað. Markmið NTÍ er að lágmarka umfang sérsmíði og nýta tilbúnar lausnir.

Eiginleikar kerfisins þurfa að styðja áherslur NTÍ varðandi aukna sjálfvirkni í vinnslu tjónamála, tengingar við stofnanir í gegnum Strauminn (X-Road), tengingar við tengd kerfi með API og styðja við þær reglur sem gilda fyrir stofnunina er varða persónuvernd, stjórnsýslu og upplýsingaöryggi. Einnig þarf kerfið að fara eftir skilgreindum ferlum NTÍ við vinnslu tjónamála á sviði náttúruhamfara með sjálfvirkni og notendaviðmót í fyrirrúmi.

Markaðskönnun þessi er undanfari innkaupaferlis þar sem niðurstöðurnar koma til með að hafa áhrif á val og útfærslu innkaupaleiðar sbr. lög nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Aðdragandi og framhald í kjölfar markaðskönnunar

Kaupandi hefur leitt fram þarfagreiningu um kerfið á grundvelli eigin væntinga til afurðarinnar. Næsta skref í undirbúningsferlinu er að dýpka þarfagreiningu kaupanda með samtali við markaðinn um mögulegar lausnir á markaði í dag sem gætu uppfyllt þörf kaupanda eða meta hvort, og í hvaða mæli, þörf sé á þróun nýrra lausna eða aðlögun núverandi lausna að þörfum kaupanda.

Í kjölfar kynningafundarins gefst fyrirtækjum tækifæri á að senda fyrirspurnir um verkefnið og svör verða birt nafnlaust opinberlega. Í kjölfarið fer fram val á innkaupaleið m.v. þarfagreiningu kaupanda og niðurstöðu markaðskönnunar. Fyrirhugað innkaupaferli verður kynnt öllum þátttakendum þegar niðurstaða liggur fyrir. Áætlað er að hefja innkaupaferli á tjónamálakerfi NTÍ í ágúst 2022 og markmiðið er að frumafurð kerfisins verði komin í notkun í árslok 2022.

Forsendur markaðskönnunar samkvæmt lögum um opinber innkaup

Þessi markaðskönnun felur ekki í sér skuldbindingu um kaup, enda ekki óskað tilboða. Markmið markaðskönnunarinnar er að undirbúa og upplýsa fyrirtæki um áformuð innkaup og væntingar til þeirra sem og veita stofnuninni innsýn og upplýsingar um stöðu á markaði m.t.t. tilbúinna lausna og áherslur fyrirtækja í sambærilegum verkefnum.

Um þessa markaðskönnun gilda lög um opinber innkaup 120/2016 nánar tiltekið 45 gr. Undanfarandi markaðskannanir þar sem segir:

  • Áður en innkaupaferli hefst er kaupanda heimilt að gera markaðskannanir til að undirbúa innkaup og upplýsa fyrirtæki um áformuð innkaup og kröfur varðandi þau.
  • Kaupandi getur í þessu skyni fengið ráðgjöf frá fyrirtækjum, sjálfstæðum sérfræðingum eða öðrum opinberum aðilum. Ráðgjöf má nota við skipulagningu og framkvæmd innkaupaferlis með því skilyrði að samkeppni sé ekki raskað og að meginreglum um gagnsæi og jafnræði sé framfylgt.

Hér með er auglýst eftir áhugasömum aðilum sem kynnu að geta veitt umbeðna þjónustu/lausn eða hluta hennar.

Áhugasamir aðilar geta skráð sig á kynningarfundinn á hlekknum hér að neðan fyrir kl. 16:00 miðvikudaginn 8. júní 2022.

***Skráningu á þennan viðburð er lokið***