Innkaupastefna ríkisins

Innkaupastefna ríkisstjórnarinnar

Innkaupastefna ríkisins var samþykkt 15. nóvember 2002.

innkaupastefna_2002

Formáli

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt innkaupastefnu ríkisins með það að markmiði að skapa traust og áreiðanlegt umhverfi í opinberum innkaupum. Innkaupastefnan nær til ráðuneyta og ríkisstofnana og ríkisaðila. Stefnan markar jafnframt áherslur og markmið í innkaupum ríkisins á árunum 2003-2006. Ríkisstjórnin leggur áherslu á framkvæmd innkaupa, þannig að tryggt verði að öll opinber innkaup séu hagkvæm, opin, ábyrg og sanngjörn. Tilhögun innkaupanna miði að því að efla samkeppni á markaði.

Með innkaupastefnunni eru sett skilgreind mælanleg markmið fyrir ríkið í heild, einstök ráðuneyti og varðandi einstök áhersluverkefni. Jafnframt eru skilgreindar þær almennu forsendur sem leggja á til grundvallar í undirbúningi og framkvæmd innkaupa ríkisins. Að lokum eru tilgreindar sérstakar áherslur og verkefni sem verða í forgrunni á næstu árum. Lögð er áhersla á að innkaup varða ekki einungis vöruna, þjónustuna eða verkið sem verið er að kaupa heldur allt það ferli sem á sér stað frá því að ákvörðun um innkaup er undirbúin og þar til viðkomandi innkaup eru hætt að nýtast.

Mikilvægt er að stjórnendur séu meðvitaðir um kostnað einstakra verkefna í rekstrinum og hver kostnaður við sambærileg verkefni er á almennum markaði. Með því að fela einkaaðilum tiltekin verkefni er hægt að ná fram markmiðum um hagræðingu, aukna samkeppnishæfni og auka fjölbreytni þjónustunnar sem byggir upp þekkingu í þjóðfélaginu og nýtist öðrum aðilum á markaði. Innkaupastefnan nær því einnig til þess að bjóða út verkefni eða rekstrarþætti sem nú eru hluti af ríkisrekstri.

Innkaupastefna ríkisins er leiðbeining fyrir ráðuneyti og ríkisstofnanir en gerir jafnframt kröfur um að farið sé að settum leikreglum og sýnt fram á skilgreindan sparnað á næstu árum. Framkvæmd innkaupa fylgir ábyrgð þar sem verið er að ráðstafa fjármunum ríkisins og hvílir skylda varðandi meðferð þessara fjármuna á þeim sem bera ábyrgð á og framkvæma innkaupin.

Innkaupastefna ríkisins hefur ekki lagalegt gildi en mælst er til þess að ráðuneyti og ríkisstofnanir leggi hana til grundvallar í innkaupum sínum. Efnisatriði stefnunnar hafa því gildi stjórnsýslufyrirmæla fyrir ráðuneyti og ríkisstofnanir.

Reykjavík 15. nóvember 2002

Geir Haarde

Geir_Haarde_1