Fasteignir

Kirkjubær

Útboðsnr Heiti
20785 Kirkjubær

Ríkiskaup kynnir:

Kirkjubær, í Fljótsdalshéraði.

Um er að ræða ríkisjörðina Kirkjubæ. Jörðin er staðsett í Hróarstungu í Fljótsdalshéraði og er aðkoma að jörðinni af Hringveg (1) um Hróarstunguveg (925) rétt austan við Fellabæ og þaðan um Kirkjubæjarveg (9268). Jörðin er á fallegum stað neðarlega á vesturbakka Lagarfljóts móts við Lagarfossvirkjun. Jörðin er talin vera um 1.799 ha. að stærð og þar af ræktað land um 51 ha. Landamerkjum jarðarinnar hefur ekki verið þinglýst. Jörðin á land að Lagarfljóti og veiðirétt í því en einnig er einhver veiði í vötnum og lækjum á jörðinni. Jörðinni fylgir greiðslumark 324,4 ærgildi.

Húsakostur jarðarinnar er gott tveggja  hæða steinsteypt íbúðarhús með auka íbúð á jarðhæð og útihús sem eru, sæmilegt tvískipt steinsteypt fjárhús ásamt sambyggðri steinsteyptri hlöðu og blásarahúsi. Einnig er á jörðinni góð vélageymsla úr stálgrind á steyptum sökkul. Á jörðinni eru óskráðar byggingar sem eru gott A-laga lambahús/skemma og léleg skúrbygging/hesthús.

Húsakostur jarðarinnar er almennt talinn vera í góðu eða sæmilegu ástandi en þarfnast viðhalds að einhverju leyti. Jörðin og húsakostur er seldur í núverandi ástandi og eru áhugasamir kaupendur hvattir til að kynna sér vel ástand jarðarinnar og húsakosts á staðnum. Á jörðinni eru friðlýstar fornminjar á fornbýlinu Fornustöðum auk þess sem vitað er um fleiri órannsakaðar fornminjar innan jarðarinnar.

Jörðin er seld með því skilyrði að nýr eigandi taki upp fasta búsetu á jörðinni. Til að stuðla að búsetu og nýtingu landsins verður jörðin einnig seld með skilyrtum takmörkunum á endursölu í tiltekinn tíma.

Í samræmi við 40. gr. jarðalaga nr. 81/2004 eru undanskilin í sölunni námuréttur og réttur til efnistöku, þ.m.t. sand- og malarnám, og vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilis- og búsþarfir. Nauðsynleg aðkoma og aðstaða til að hagnýta réttindin eru einnig undanskilin sölunni.

Ekki verður tekin afstaða til tilboða fyrr en í fyrsta lagi 18. júní.

Allar nánari upplýsingar veita starfsmenn Ríkiskaupa í síma 530-1400 eða í gegnum netfangið fasteignir@rikiskaup.is

Einnig er hægt að sjá eignina og myndir af henni inni á fasteignavef MBL
https://www.mbl.is/fasteignir/fasteignasala/rikiskaup/