Aðrir viðburðir

Prentun - vistvæn skilyrði

Umhverfisskilyrði fyrir þennan samning voru unnin í góðri samvinnu við Umhverfisstofnun.

 Umhverfisskilyrði pappírs voru metin á grundvelli upplýsinga frá bjóðendum.

Bjóðendur áttu að skila inn lista yfir pappír sem notaður er, tilgreina þyngd pappírs skipt upp í samþykktan og ósamþykktan. Gefin voru 10 stig ef samþykktur pappír náði 80% af 3ja mánaða tímabili ársins 2010 og 15 stig ef samþykktur pappír náði 90% af 3ja mánaða tímabili ársins 2010.

 Lágmarkskröfur voru gerðar vegna umhverfisskilyrða í efna og hráefnisnotkun, þar sem gerð var krafa um að a.m.k. 90% af heildar notkun prentsmiðjunnar á þriggja mánaða tímabili af efnum innan hvers flokks skyldi uppfylla efnakröfur.   

 Prentsmiðjan Oddi, Ísafoldarprentsmiðja og Svansprent eru Svansmerktar prentsmiðjur.

 Samskipti sérhæfa sig í stafrænni prentun.

Vistvæn skilyrði fyrir prentþjónustu á vinn.is

Gátlisti fyrir prentun

 Leitið leiða til að lágmarka umfang þess sem á að prenta. Oft er hægt að koma upplýsingum til skila á árangursríkan og umhverfisvænni hátt með öðrum leiðum, t.d. á tölvutæku formi. Einnig er hægt að minnka umfang efnis sem á að prenta með hnitmiðuðum texta og skynsamlegri uppsetningu.

Veljið prentþjónustu sem er umhverfismerkt (s.s. með Svansmerkinu) eða sem vinnur samkvæmt vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi (s.s. ISO 14001 eða EMAS). Viðurkennd umhverfismerking er trygging fyrir því að viðkomandi prentþjónusta er meðal þeirra sem uppfylla ströngustu umhverfiskröfur og að umhverfisáhrif þjónustunnar hafi markvisst verið lágmörkuð á öllum stigum lífsferils hennar, án þess að það sé á kostnað virkni eða gæða vörunnar. Sé unnið samkvæmt vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi er það til marks um að markvisst sé unnið að því að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar.

Biðjið um að notaður sé pappír sem er umhverfismerktur t.d. með Svaninum, Blóminu eða Bláa Englinum.

Takið mið af því við hönnun á prentefni að notað verði pappírsform og stærð sem lágmarkar pappírsafskurð. Stór hluti pappírssóunar stafar af því að prentefni er ekki hannað þannig að pappír nýtist sem best. Með réttri hönnun bréfsefnis er hægt að minnka pappírsnotkun verulega.

 Biðjið um að notaður sé pappír sem hæfir notkun og er eins þunnur og mögulegt er. Þannig er stuðlað að því að ekki sé notaður þykkari eða meira meðhöndlaður pappír en þörf er á. Þó getur borgað sig að nota þykkari pappír af meiri gæðum til að hámarka endingu þess sem verið er að prenta, þegar viðkomandi prentefni þarf að endast lengi.