Fara í efni

Innkaupastefna ríkisins

Innkaupastefna ríkisins frá 2002 hefur ekki verið endurnýjuð með formlegum hætti eða á svipuðu formi og gert var það árið. Margt í þessari stefnu er samt enn  í fullu gildi en það sem bæst hefur við frá þessum tíma er stefna og áherslur stjórnvalda sem hafa birst í formi nýrra tilskipana, lagabreytinga, fjármálaáætlunar stjórnvalda og stjórnvaldsákvarðana í kjölfar úttekta og vinnu verkefnahópa.

Ný tilskipun um opinber innkaup tók gildi hjá Evrópusambandinu í febrúar 2014 fól í sér endurskoðun stefnu um opinber innkaup. Þar kemur m.a. fram að í áætlun Evrópuríkja um aukinn hagvöxt gegna opinber innkaup lykilhlutverki í að ná fram bestu mögulegri nýtingu opinbers fjármagns.

Íslandi, sem aðildarlandi að Evrópska efnahagssvæðinu, ber skylda til að innleiða tilskipanir á sviði opinberra innkaupa. Í því skyni var nauðsynlegt að endurskoða og færa gildandi lög og reglur um opinber innkaup til nútímahorfs. Af fjölmörgum breyttum áherslum í nýjum lögum um opinber innkaup sem tóku gildi í lok október 2016 má nefna aukin sameiginleg innkaup, samstarf miðlægra innkaupastofnana, nýsköpun í innkaupum og aukið vægi umhverfis- og félagslegra þátta við innkaup á vöru, verkframkvæmd eða þjónustu. Í greinagerðum með tilskipuninni og lögunum má lesa um helstu áherslur og breytingar.

Þetta efni má finna á þessari síðu Lög og reglugerðir.

Árið 2014 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem vinna átti að frekari athugunum og tillögum að árangursríkari innkaupum. Hópurinn skilaði tillögum sem hrint var í framkvæmd árið 2015 og næstu ár á eftir. Niðurstöðu hópsins er m.a. að finna í kynningunni Nýjar áherslun í innkaupum

Ríkisstjórn á hverjum tíma vinnur í samræmi við fjármálaáætlun sem samþykkt er á hverju vori.

Innkaupastefna 2002

Um samþykkta innkaupastefnu ríkisins

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt innkaupastefnu ríkisins með það að markmiði að skapa traust og áreiðanlegt umhverfi í opinberum innkaupum. Innkaupastefnan nær til ráðuneyta og ríkisstofnana og ríkisaðila. Stefnan markar jafnframt áherslur og markmið í innkaupum ríkisins á árunum 2003-2006. Ríkisstjórnin leggur áherslu á framkvæmd innkaupa, þannig að tryggt verði að öll opinber innkaup séu hagkvæm, opin, ábyrg og sanngjörn. Tilhögun innkaupanna miði að því að efla samkeppni á markaði.

Með innkaupastefnunni eru sett skilgreind mælanleg markmið fyrir ríkið í heild, einstök ráðuneyti og varðandi einstök áhersluverkefni. Jafnframt eru skilgreindar þær almennu forsendur sem leggja á til grundvallar í undirbúningi og framkvæmd innkaupa ríkisins. Að lokum eru tilgreindar sérstakar áherslur og verkefni sem verða í forgrunni á næstu árum.Lögð er áhersla á að innkaup varða ekki einungis vöruna, þjónustuna eða verkið sem verið er að kaupa heldur allt það ferli sem á sér stað frá því að ákvörðun um innkaup er undirbúin og þar til viðkomandi innkaup eru hætt að nýtast.

Mikilvægt er að stjórnendur séu meðvitaðir um kostnað einstakra verkefna í rekstrinum og hver kostnaður við sambærileg verkefni er á almennum markaði. Með því að fela einkaaðilum tiltekin verkefni er hægt að ná fram markmiðum um hagræðingu, aukna samkeppnishæfni og auka fjölbreytni þjónustunnar sem byggir upp þekkingu í þjóðfélaginu og nýtist öðrum aðilum á markaði. Innkaupastefnan nær því einnig til þess að bjóða út verkefni eða rekstrarþætti sem nú eru hluti af ríkisrekstri.

Innkaupastefna ríkisins er leiðbeining fyrir ráðuneyti og ríkisstofnanir en gerir jafnframt kröfur um að farið sé að settum leikreglum og sýnt fram á skilgreindan sparnað á næstu árum. Framkvæmd innkaupa fylgir ábyrgð þar sem verið er að ráðstafa fjármunum ríkisins og hvílir skylda varðandi meðferð þessara fjármuna á þeim sem bera ábyrgð á og framkvæma innkaupin.

Uppfært 30. nóvember 2020