Fara í efni

Valitor sér um kortamóttöku fyrir ríkisstofnanir

Valitor og Ríkiskaup hafa skrifað undir samning um greiðslukortaþjónustu (færsluhirðingu) Valitor fyrir allar A-hluta ríkisstofnanir. Samningurinn nær einnig til allra greiðslulausna, hvort sem er posa eða veflausna til móttöku korta.

Samningurinn er gerður að undangengnu útboði þar sem Valitor reyndist vera með hagstæðasta tilboðið. Samningurinn er til tveggja ára með möguleika á framlengingu til tveggja ára til viðbótar. Valitor er þar með þátttakandi í stafrænni vegferð Fjársýslu ríkisins og verða lausnir félagsins notaðar með það að markmiði að auðvelda greiðslur og efla og bæta þjónustu.

Valitor var færsluhirðir ríflega helmings A-hluta stofnanna ríkisins fyrir samninginn en næstu daga verður öll færslurhirðing A-hluta stofnanna færð til Valitor.

Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri skrifaði undir samninginn fyrir hönd Valitor. Fyrir hönd Ríkiskaupa skrifaði Björgvin Víkingsson forstjóri. Með á myndinni eru Pétur Pétursson, framkvæmdastjóri færsluhirðingarlausna Valitor, Anton Karl Jakobsson, sérfræðingur hjá Fjársýslu ríkisins, og Hafdís Vala Freysdóttir, sérfræðingur hjá Ríkiskaupum.

Nánari upplýsingar veitir Jónína Ingvadóttir f.h. Valitor í s. 820 2045, og Hafdís Vala Freysdóttir f.h. Ríkiskaupa í síma 530 1445.