Fara í efni

Til forstöðumanna A-hluta ríkisstofnana - Sameiginlegt útboð á rafbílum fyrir árið 2022

Mynd eftir Ralph Hutter á Unsplash
Mynd eftir Ralph Hutter á Unsplash

Hjá Ríkiskaupum er nú hafinn undirbúningur vegna sameiginlegs útboðs A-hluta stofnana á rafbílum fyrir árið 2022.

Forstöðumenn A-hluta stofnana eiga von á því að fá tölvupóst þess efnis á næstu vikum og þeim gefinn kostur á að taka þátt í útboðinu. Stofnanir þurfa ekki að fá samþykki bílanefndar þegar þær taka þátt í sameiginlegum innkaupum á rafmagnsbifreiðum. Er það liður í að liðka fyrir orkuskiptum á bifreiðaflota ríkisins.

Útboðið er þáttur í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og er í samræmi við þá ríku áherslu sem stjórnvöld leggja á að hraða orkuskiptum í samgöngum.

Síðustu sameiginlegu útboð á rafmagnsbílum hafi gengið mjög vel og skilað kaupendum betri verðum. Stefnt er að því að sameiginleg innkaup A-hluta stofnana verði framtíðarfyrirkomulag innkaupa á rafmagnsbifreiðum.

Það tilkynnist einnig að rammasamningi ríkisins um bifreiðakaup hefur verið sagt upp og tekur uppsögnin gildi 1. nóvember n.k.

Áætlað er að innkaup ríkisins á bifreiðum fari í gegnum gagnvirkt innkaupakerfi, svokallað DPS, og tekur sá samningur gildi strax í byrjun ársins 2023.

Verður lögð áhersla á sameiginleg innkaup A-hluta stofnana og að þau innkaup fari fram hjá Ríkiskaupum. Þannig verði vikið frá því að einstaka stofnanir fari sjálfar í örútboð eins og tíðkast hefur.

Er það mat Ríkiskaupa að hagsmunum ríkis við innkaup á bifreiðum sé betur borgið innan DPS en innan rammasamnings þar sem að örar tæknibreytingar eru á þessum markaði og nýjum söluaðilum þannig gert kleift að gerast aðili að samningi á gildistíma samnings.

Fyrirkomulag sameiginlegra innkaupa innan DPS verður betur kynnt fyrir kaupendum síðar.