Fara í efni

Sameiginlegt örútboð á námsgögnum grunnskólanema

Enn fjölgar þeim grunnskólabörnum sem fá ókeypis námsgögn í haust. Nokkur sveitarfélög hafa ákveðið að nýta sér sameiginlegt örútboð Ríkiskaupa á námsgögnum, innan rammasamnings um ritföng og skrifstofuvörur. Sveitarfélögin eru: Blönduós, Garður, Hafnarfjörður, Hornafjörður og Mosfellsbær. Ákvörðun um að bjóða upp á sameiginleg innkaup fyrir skólaárið 2017-2018 var tekin í kjölfar örútboðs hjá Reykjanesbæ og reynslu Ísafjarðarkaupstaðar og Sandgerðis.

Á vef Reykjanesbæjar (Opnast í nýjum vafraglugga) má sjá umfjöllun um árangur af þeirra örútboði.

Ríkiskaup annast sameiginlegt örútboð innan rammasamnings um ritföng og skrifstofuvörur þátttakendum að kostnaðarlausu. Sveitarfélög sem kjósa að vera með þurfa einungis að áætla þörf skólanna fyrir námsgögn og má til gamans nefna að í þetta skiptið er gert ráð fyrir kaupum á u.þ.b. 19.500 blýöntum og ríflega 12.000 strokleðrum. Ríkiskaup sjá síðan um að senda öll gögn á seljendur í rammsamningnum sem eru Rekstrarvörur, Múlalundur, Penninn og Egilsson (A4). Samið verður við lægstbjóðanda og er áætlað er að niðurstaða liggi fyrir eftir 1-2 vikur eða tímanlega áður en skólastarf hefst í haust.

Gjaldfrjáls námsgögn eru í samræmi við 28. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var lögfestur á Íslandi 20. febrúar 2013. Því er ávinningur örútboðs þessa ekki aðeins fjárhagslegur fyrir sveitarfélögin heldur munu öll börn í sveitarfélögunum njóta jafnræðis í námi.