Fara í efni

Nýtt og endurbætt útboð fyrir Rammasamning um byggingarvörur

Eitt af lykilmarkmiðum Ríkiskaupa 2.0 er að skila tíföldu virði til viðskiptavina sinna. Til þess að ná því markmiði þarf stofnunin að vinna náið með hagsmunaaðilum og kalla eftir ábendingum og umbótatillögum strax á upphafsstigum útboðsgerðarinnar. Aukið samstarf og bætt kynningarefni til kaupenda í rammasamningsútboðum er einn af lykilþáttum þess að skapa aukið virði.

Með það í huga var ákveðið á undirbúningsfasa á nýjum rammasamningi um byggingarvörur að boða til kynningarfundar strax í upphafi og fá kaupendur úr eldri samningi til liðs við okkur.
Markmið fundarins var að líta yfir farinn veg og rýna framkvæmd eldri samninga ásamt því að kynna nýja bætta aðferðafræði við nálgun og uppsetningu á komandi samningi.
Sú aðferðafræði sem kynnt var á fundinum byggir á dönsku módeli sem innkaupastofnun Danmerkur (SKI) hefur verið að nota í tveimur samskonar útboðum þar í landi. Á undirbúningstímanum boðaði Ríkiskaup reglulegar vinnustofur með teymi frá SKI þar sem farið var ofan í saumana á hugmyndafræðinni og hvernig heimfæra mætti þeirra nálgun yfir á íslenskt innkaupaumhverfi.

Samhliða þessari vinnu settu Ríkiskaup sig í samband við stærstu seljendur á byggingavörumarkaði hérlendis og áttu mjög opið samtal varðandi þróun á markaði síðustu ára. Margar gagnlegar ábendingar komu frá seljendum sem nýttust til vinnslu á nýjum útboðsgögnum í takt við markaðsframboð og umhverfiskröfur.

Gerð útboðsgagna hefur gengið vel í kjölfarið, enda undirbúningur vel skipulagður og má vænta útboðsauglýsingar á miðvikudaginn  8.mars 2023 fyrir nýjan rammasamning um byggingarvörur.
Hvetjum við því alla áhugasama til að fylgjast vel með á útboðsvefnum .