Fara í efni

Ný lög um opinber innkaup

Ríkiskaup og Reykjavíkurborg bjóða upp á kynningu á helstu breytingum á lögum um opinber innkaup nr. 120/2016. Boðið verður upp á tvær dagsetningar; þriðjudaginn 15. nóvember og föstudaginn 18. nóvember. Kynningin stendur frá 8.30 – 10.00 og verður í húsakynnum Reykjavíkurborgar í Borgartúni 14, 7. hæð

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir en við biðjum fólk vinsamlegast um að skrá sig á aðra hvora dagsetninguna gegnum viðburðinn á Facebook.

Hlekkir á nánari upplýsingar og skráningu:

Facebook:

https://www.facebook.com/events/1754504131467425/ (Opnast í nýjum vafraglugga)

https://www.facebook.com/events/202294400214590/ (Opnast í nýjum vafraglugga)

Fyrir þá sem ekki nota Facebook:

https://www.eventbrite.com/e/ny-log-um-opinber-innkaup-helstu-breytingar-tickets-29272501841 (Opnast í nýjum vafraglugga)

https://www.eventbrite.com/e/ny-log-um-opinber-innkaup-helstu-breytingar-tickets-29272696423 (Opnast í nýjum vafraglugga)

Ýmsar breytingar eru gerðar frá eldri lögum þótt meginefni sé það sama.  Helstu breytingar sem lögin fela í sér, eru að tilboðsfrestir hafa verið styttir og er til dæmis frestur í almennu útboði yfir viðmiðunarfjárhæðum á EES nú 35 dagar í stað 52 daga skv. eldri lögum.  Reglur um fresti eru í 57.-59. gr. laganna.

Önnur stór breyting snýr að viðmiðunarfjárhæðum.  Mörkin eru nú 15,5 mkr. vegna vöru og þjónustukaupa innanlands en 49 mkr. vegna verkframkvæmda.  Breytingin nær einnig til sveitarfélaga frá og með 31. maí 2019 en þau voru áður undanþegin innlendum viðmiðunarmörkum. Til að koma til móts við sveitarfélögin vegna breytinga á gildissviði viðmiðunarfjárhæða hafa aðlaganir verið gerðar á útboðsreglum frumvarpsins sem einkum hafa það markmið að slaka á tilteknum formkröfum við minni innkaup. Hér má nefna að biðtími vegna innkaupa undir EES viðmiðunarfjárhæðum hefur verið styttur úr tíu dögum niður í fimm daga. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélögin hafi aðlögunartíma fram á mitt ár 2019 þar til almenn útboðsskylda tekur gildi gagnvart þeim.

Mælt er fyrir um að allir opinberir kaupendur skuli framvegis auglýsa innkaup sín á sameiginlegum vettvangi www.utbodsvefur.is (Opnast í nýjum vafraglugga) þar sem hægt verður að nálgast öll útboð sem falla undir innkaupareglurnar á einum og sama stað með einföldum hætti. Með því að tryggja fyrirtækjum aðgang að miðlægum vettvangi fyrir útboðsauglýsingar er verið að stuðla að auknu jafnræði og gagnsæi við innkaup. Sjá 55. gr. laganna.

Sömu innkaupaferli verða áfram en tvö ný bætast við, nýsköpunarsamstarf og samkeppnisútboð. Nýsköpunarsamstarf heimilar kaupanda og bjóðanda að vinna saman að því að þróa nýsköpunarlausnir sem ekki eru þegar til staðar á markaðnum. Samkeppnisútboð er innkaupaferli sem nýtist þegar um er að ræða þjónustu eða vörur sem krefjast breytinga eða hönnunar, t.d. við flókin innkaup á sértækri vöru, hugverkaþjónustu eða ýmiss konar ráðgjafarþjónustu.

Samkvæmt eldri lögum var ýmis þjónusta undanþegin lögunum, svokölluð B-þjónusta, en nú gildir sú undanþága ekki lengur og innkaup á mun fleiri þjónustuflokkum eru nú útboðsskyld.

Skýrari ákvæði eru nú um aukna samvinnu milli opinberra aðila við sam­eigin­leg innkaup og auknar heimildir ráðherra að skylda stofnanir ríkisins til að standa saman að tilteknum innkaupum til að ná fram hagkvæmari innkaupum. Fyrir opinbera aðila er einnig fréttnæmt að þeir hafa nú rýmri heimildir til að semja hver við annan án þess að láta fara fram útboð en reglur svokallaða innanhússsamninga eru í 13. gr. laganna.