Fara í efni

Ljósleiðarahringtenging Vestfjarða - Beiðni um upplýsingar (RFI)

Í þessum fyrsta fasa er kallað eftir upplýsingum (RFI) með það að markmiði að kanna sannanleg áform markaðsaðila um eigin uppbyggingu og rekstur á markaðslegum forsendum á næstu þremur árum. Ef engar sannanlegar og ábyggilegar upplýsingar um slík áform berast þá hyggst fjarskiptasjóður veita styrk til umrædds verkefnis.

Auglýst er eftir:

A.     Aðila eða aðilum sem sannanlega ætla að koma á tvöföldun ljósleiðaratenginga á Vestfjörðum á næstu þremur árum.

eða

B.     Hæfum aðila eða aðilum til að taka að sér að byggja og reka til framtíðar tvöföldunina með  opinberum stuðningi, komi til þess að enginn ætli að gera það án opinbers stuðnings.

Innanríkisráðherra hefur falið fjarskiptasjóði að styrkja verkefnið, sé þess þörf.

Aðilar sem óska eftir opinberum stuðningi skulu uppfylla tilteknar kröfur um fjarskiptaleyfi, fjárhagslegan styrk, reynslu af uppbyggingu og rekstri sambærilegra kerfa, raunhæfa verkáætlun o.fl.Tvöföldunin skal tengja saman símstöðvar frá Stað í Hrútafirði til Súðarvíkur með viðkomu í Hólmavík.

Punktalína táknar fyrirliggjandi ljósleiðarastrengi. Heil lína táknar leið þar sem ljósleiðarastrengur er ekki fyrirliggjandi.

Í sunnanverðum Bitrufirði, frá Hólmavík að Nauteyri og frá Reykjanesi að Látrum í Mjóafirði eru þegar ljósleiðarastrengir. Leið ljósleiðarastrengs skal vera um láglendi og vera nærri þjóðvegum á leiðinni.

Nýta skal hagkvæma samlegð með öðrum fyrirhuguðum jarðvinnu- og veituframkvæmdum á leið nýja ljósleiðarastrengsins. Verkinu skal lokið eigi síðar en árið 2016 og helst árið 2015 sé þess kostur.

Ljósleiðarakerfið skal þannig byggt að einnig verði hægt að nota það til að tengja með ljósleiðara byggingar sem eru á leið strengsins, þótt tenging við slíka staði sé ekki hluti tvöföldunarinnar.

Aðilar sem óska eftir opinberum stuðningi skulu uppfylla eftirtalin skilyrði til að teljast hæfir og skulu aðilar leggja fram gögn því til sönnunar: 

a)      Aðili sé með fjarskiptaleyfi, sé í fjarskiptarekstri og veiti fjarskiptaþjónustu.

b)      Aðili hafi að minnsta kosti þriggja ára reynslu af byggingu og rekstri stórra ljósleiðarakerfa.

c)      Aðili leggi fram raunhæfa áætlun um framkvæmd verksins, þar sem gerð er grein fyrir því hvernig verkið verði unnið, verkáætlun og tæknilegri högun ljósleiðarkerfisins.

d)      Aðili hafi fjárhagslegan styrk til að framkvæma verkið og reka strenginn til frambúðar,  geti fjárfest fyrir 200 milljónir króna, hafi jákvætt eigið fé að lágmarki 150 milljónir króna og  jákvæða afkomu.

e)      Aðstæður aðila séu ekki andstæðar ákvæðum 47. greinar laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

Sá aðili sem tekur að sér tvöföldunina með opinberum stuðningi skal veita sem víðtækasta virka og óvirka þjónustu í heildsölu með sanngjörnum hætti án mismununar. Verðlagning þjónustu í heildsölu skal vera í samræmi við viðmið Póst- og fjarskiptastofnunar um verðlagningu þjónustu og önnur sambærileg viðmið á samkeppnismörkuðum að teknu tilliti til þeirrar opinberu aðstoðar sem aðilinn nýtur. 

Áhugasamir aðilar skulu senda tilkynningu til Ríkiskaupa á netfangið utbod@rikiskaup.is fyrir kl. 12:00 þann 06.03.2015. Í tilkynningunni skal koma fram nafn og kennitala aðila, auk upplýsinga um ofangreint eftir því sem við á.

Frestur til að óska eftir nánari upplýsingum/skýringum rennur út kl. 12:00 þann 03.03.2015. Fyrirspurnir skal senda á netfangið utbod@rikiskaup.is. Frestur til að svara slíkum fyrirspurnum rennur út kl. 12:00 þann 05.03.2015.  Allar fyrirspurnir og svör við þeim verða birt á vef Ríkiskaupa, www.rikiskaup.is.

Fyrirspurnir og svör

(PDF skjal) RFI-Fyrirspurnir_Svor_04032015