Fara í efni

Kynningarfundur um fyrirhugað útboð á rekstri á afritun fyrir Landspítala

Samtal við markaðinn um mögulega lausn

Landspítali (kaupandi) er að undirbúa fyrirhugað útboð á rekstri á afritun (þjónusta) fyrir Landspítala. Markaðskönnun þessi felst í því að óska eftir aðkomu áhugasamra fyrirtækja á markaði í undirbúningsferli verkefnisins.

Áhugasömum aðilum er boðið á kynningarfund (fjarfund) mánudaginn 6. febrúar 2023 kl. 13:00-14:30 um umfang reksturs afritunar innan Landspítala og væntingar kaupanda til þjónustunnar. Á kynningarfundinum fer fram kynning kaupanda og í framhaldinu verður boðið upp á samtal um hentugar lausnir á markaði, þörf á aðlögun eða samspili lausna og almenna umræðu um fyrirspurnir fyrirtækja um verkefnið.

Afurðin í hnotskurn

Afritun á gögnum innan Landspítala er nauðsynlegur partur af öryggi gagna og til að auka uppitíma á kerfum spítalans. Afritunin þarf að uppfylla kröfur spítalans sem koma að geymslu, tíðni og hraða samkvæmt gæðastöðlum spítalans.

Aðdragandi og framhald í kjölfar markaðskönnunar

Kaupandi hefur leitt fram þarfagreiningu um afritunarreksturinn. Næsta skref í undirbúningsferlinu er að dýpka þarfagreiningu kaupanda með samtali við markaðinn um mögulegar lausnir á markaði í dag sem gætu uppfyllt þörf kaupanda.

Í kjölfarið fer fram útboð innan DPS samnings Ríkiskaupa RK03.06 DPS – Skýjaþjónusta, hýsing- og rekstrarþjónusta, sjá hér. Áhugasömum aðilum er því gefinn kostur á að skrá sig í DPS samningin áður en útboðið fer fram. Áætlað er að hefja útboð innan við 30 daga frá kynningarfundi og væntingar kaupanda eru að rekstur afritunarlausnar sé hafinn fyrir mitt ár 2023.

Forsendur markaðskönnunar samkvæmt lögum um opinber innkaup

Þessi markaðskönnun felur ekki í sér skuldbindingu um kaup, enda ekki óskað tilboða. Markmið markaðskönnunarinnar er að undirbúa og upplýsa fyrirtæki um áformuð innkaup og væntingar til þeirra sem og veita stofnuninni innsýn og upplýsingar um stöðu á markaði m.t.t. tilbúinna lausna og áherslur fyrirtækja í sambærilegum verkefnum.

Um þessa markaðskönnun gilda lög um opinber innkaup 120/2016 nánar tiltekið 45 gr. undanfarandi markaðskannanir þar sem segir:

  • Áður en innkaupaferli hefst er kaupanda heimilt að gera markaðskannanir til að undirbúa innkaup og upplýsa fyrirtæki um áformuð innkaup og kröfur varðandi þau.
  • Kaupandi getur í þessu skyni fengið ráðgjöf frá fyrirtækjum, sjálfstæðum sérfræðingum eða öðrum opinberum aðilum. Ráðgjöf má nota við skipulagningu og framkvæmd innkaupaferlis með því skilyrði að samkeppni sé ekki raskað og að meginreglum um gagnsæi og jafnræði sé framfylgt.

Hér með er auglýst eftir áhugasömum aðilum sem kynnu að geta veitt umbeðna þjónustu/lausn. Áhugasamir aðilar geta skráð sig á kynningarfundinn á hlekknum hér að neðan fyrir sunnudaginn 5. febrúar 2023 kl. 23:59. Skráðir fundargestir eru hvattir til að taka frá fundarímann. Allir fundargestir fá sent fjarfundarboð á fundardegi kl 10:00. 

Skráningu fyrir þennan viðburð er lokið