Fara í efni

Fimm tilboð bárust í útboði Ríkiskaupa á einkennisfatnaði fyrir lögreglu

Útboð á einkennisfatnaði lögreglu nr. 20524 var auglýst í byrjun nóvember og var fyrirkomulagið svokallað tveggja þátta útboð. Tilboðsfrestur rann út í dag og þá var haldinn fyrri opnunarfundur þar sem tekið var við tilboðum og lesin upp nöfn bjóðenda. Í framhaldinu fer fram gæðamat á boðnum fatnaði. Á grunni gæðamatsins fær hver bjóðandi heildareinkunn fyrir gæði fatnaðar fyrir sitt tilboð. Gæði fatnaðarins vega 60% af heildarmati tilboðsins og verð 40%. Þegar gæðamati lýkur verður boðað til seinni opnunarfundar þar sem verðtilboð bjóðenda verða opnuð.

Á fyrri opnunarfundi í dag voru nöfn bjóðenda lesin upp og voru þau eftirfarandi:

1. Martex ehf.

2. Eyfeld ehf

3. HISS ehf.

4. Northwear ehf.

5. Sjóklæðagerðin

Framkvæmd gæðamatsins er í umsjón „Fata- og búnaðarnefnd ríkislögreglustjóra“ sem skipuð er fulltrúum frá Lögreglustjórafélagi Íslands, Landssambandi lögreglumanna, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu auk fulltrúa Ríkislögreglustjóra sem jafnframt er formaður nefndarinnar.

Mun nefndin, ásamt óháðum ráðgjafa, yfirfara og meta hverja flík en bjóðendur skiluðu inn sýnishornum boðins fatnaðar sl. mánudag í ómerktum umbúðum og án allra auðkenna bjóðenda. Þannig mun gæðamatið fara fram á grunni þess gæðalíkans sem var skilgreint í útboðsgögnum Ríkiskaupa, án þess að vitað sé frá hvaða framleiðanda fatnaðurinn er né verð hans.

Með þessu er ætlað að fyrirbyggja að upplýsingar um verð og framleiðanda fatnaðar hafi áhrif á mat nefndarinnar. Stefnt er að því að gæðamat fari fram í næstu viku og verðtilboð verði opnuð í framhaldinu á seinni opnunarfundi.