Fara í efni

Enn meiri afsláttur af eldsneytisverði í nýjum rammasamningi Ríkiskaupa

Nýr rammasamningur um kaup ríkisins á eldsneyti fyrir ökutæki og vélar hefur verið undirritaður. Samningurinn tók gildi 12. febrúar sl.

Markmiðið með útboðinu var að veita áskrifendum rammasamninga Ríkiskaupa eldsneyti og olíur á hagstæðasta verði með áherslu á jafnræði, virka samkeppni og gott aðgengi. Óhætt er að segja þau markmið hafi náðst þar sem samningurinn tryggir opinberum aðilum sem eru aðilar að samningnum allt að 35 króna afslátt af lítraverði (m/vsk.) á stöðvum þjónustuaðila hverju sinni. Vænta má allt að 30 milljón króna viðbótarávinningi af þessum samningi á ári ef allir kaupendur nýta þá afgreiðslustaði sem veita hagkvæmasta verð.

Samið var við þrjá þjónustuaðila um allt land, þ.e. Olíuverzlun Íslands (Olís), Skeljung, og N1 um kaup á bensíni, díselolíu og smurolíum.

Samningurinn kveður á um fastan krónutöluafslátt á lítra sem miðast við það eldsneytisverð sem er í gildi á hverri afgreiðslustöð fyrir sig. Olís býður samningsbundin kjör bæði á bensínstöðvum Olís og á ÓB stöðvum. Hjá N1 og Skeljungi eru stöðvar Dælunnar og Orkunnar-X undanskildar.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar um samninginn á vef Ríkiskaupa.

Til að fá aukinn skilning  á því hvað þessi samningur er hagstæður  er ágætt að  skoða það út frá hlut eldsneytis í upplýsingum um rekstrarkostnað bifreiða á vef FÍB (Opnast í nýjum vafraglugga) :

  • Dæmi A. Sparneytinn bíll í vistakstri: Nýr bíll sem eyðir um 7 lítrum á hundraðið og meðalakstur 15 þúsund km á ári notar þá 1.050 lítra á ári sem þýðir árlegan sparnað upp á tæpar 37.000 kr. með því að nýta hámarksafslátt sem samningurinn býður upp á.
  • Dæmi B. Jepplingur í blönduðum akstri: Nýr bíll sem eyðir um 10 lítrum á hundraðið og meðalakstur 30 þúsund km á ári  notar 3.000 lítra af eldsneyti og sparar þannig um 105.000 kr. á ári með samningnum.
  • Dæmi C sem er þá eins konar millivegur gæti verið eyðsla upp á 8 lítra á hundraðið og meðalakstur 20 þúsund km á ári notar 1.600 lítra af eldsneyti og sparar um 56.000 kr. á ári.

Samið er til eins árs með möguleika á framlengingu þrisvar sinnum til eins árs í senn. Út frá þeim forsendum er mögulegt að heildarsparnaður í hvoru dæmi fyrir sig nái annars vegar tæplega 150 þúsund krónum og hinsvegar um 420 þúsund kr. á ári.

Ef við förum meðalveginn eins og í dæmi C og margföldum þá niðurstöðu með fjölda bensín- og dísel bifreiða og ökutækja í eigu ríkisins sem eru um 1.200 talsins,  skilar samningurinn rúmlega 67 milljóna króna sparnaði á ári eða 336 milljónum á 4 ára tímabili.