Fara í efni

Bílaleiga vs einkabíllinn

Nokkur fjölmiðlaumfjöllun hefur verið gangi undanfarna daga um það með hvaða hætti opinberir aðilar meðhöndli greiðslur til starfsmanna fyrir akstur og er þá helst verið að bera saman notkun einkabílsins við leigu á bílaleigubíl. Því er ekki úr vegi að minna á rammasamninga Ríkiskaupa um bílaleigu og nýjan samning um eldsneytiskaup.

Á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda (Opnast í nýjum vafraglugga) er samantekt á kostnaði við að reka bíl á ársgrundvelli. Þar er tekið dæmi af nýjum díselknúnum jepplingi þar sem  heildarkostnaðurinn sé um 2,4 milljónir á ári.

Í rammasamningi Ríkiskaupa um bílaleigu geta opinberir aðilar sem eru þátttakendur í rammasamningum leigt bifreiðar með 30-35% afslætti frá verðlistaverði og hægt að ná enn betri kjörum í örútboði ef t.d. um langtímaleigu er að ræða. Sú krafa er gerð til þjónustuaðila að boðnar bifreiðar standist ákveðnar lágmarkskröfur um t.d. um eldneytiseyðslu og útblástur. Þá eru einnig boði bifreiðar sem eru knúnar af öðrum orkugjöfum en bensíni og olíu, ýmist í bland eða alfarið.

Fyrir þá sem kjósa bifreiðar knúnar hefðbundnu eldsneyti geta opinberir aðilar, sem eru þátttakendur í rammasamningum, haldið kostnaði við eldsneytiskaup í lágmarki með því að nýta rammasamning Ríkiskaupa um eldsneyti fyrir ökutæki og vélar. Nýr samningur tók gildi 12. febrúar sl. og bjóðast nú bestu mögulegu kjör á markaði, enn betri en í fyrri samningi eða allt að 35 króna afsláttur af lítraverði eldsneytis.