Fara í efni

Advania hlutskarpast í örútboði á hýsingu fyrir fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins

Alls bárust átta tilboð frá þremur aðilum; Advania, Opnum kerfum og Símanum.
Tölvukerfið Orri er samheiti yfir ýmis kerfi ríkisins, t.d. fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins auk ýmissa stuðningskerfa sem því fylgja.  Kerfið er notað af um 190 stofnunum hins opinbera. Um 1900 grunnkerfisnotendur eru með aðgang að Orra ásamt allt að 15 þúsund einstaklingum í sjálfsgreiðslu með vefaðgang.  Um 19 þúsund aðilar fá reglulega launagreiðslur sem kerfið annast mánaðarlega.

Örútboðið náði yfir alla hýsingu og daglegan rekstur á Orra kerfinu.  Bjóðendur þurftu að útvega allan miðlægan tölvubúnað (miðlara, millibúnað, gagnavistun, netbúnað) fyrir þróun, prófun og raunumhverfi ásamt stoðkerfum s.s. afritun, vélasal, kælikerfi og varaafl.  ORRI_UndirritunEinnig þurftu bjóðendur að útvega og kosta hugbúnað s.s. stýrikerfi, gagnagrunna, millibúnað og þess háttar eins og skilgreint var nánar í örútboðinu.  Kerfisvinna við daglegan rekstur kerfisins var hluti örútboðsins.

Gild tilboð voru metin í samræmi við lýsingar örútboðsgagna og var það tilboð sem fékk flest stig í yfirferðinni metið hagstæðast og í kjölfarið samið við þann bjóðanda sem átti tilboðið. Samningurinn er til sex ára með heimild til framlengingar um allt að tvö ár.

 

Á myndinni eru frá vinstri til hægri: Eyjólfur Magnús Kristinsson og Gestur G. Gestsson frá Advania, Gunnar H. Hall og Stefán Kjærnested frá Fjársýslu ríkisins