Fara í efni

Völundur – MölUndur; samnýting jarðvegs við opinberar framkvæmdir

Björgvin Víkingsson forstjóri Ríkiskaupa skrifar undir samstarfssamning við NetPower

Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa hefur undirritað  samstarfssamning við NetPower um hönnun hugbúnaðar og gagnagrunns sem miðar að því að opinberir framkvæmdaaðilar samnýti jarðveg sem fellur til við opinberar framkvæmdir. 

Samningurinn snýr að hönnun á miðlægum gagnagrunni í formi smáforrits/vefviðmóts sem Ríkiskaup (og aðrir útboðsskyldir aðilar) geta óskað eftir að sé notað í jarðvegsframkvæmdum og lágmarka þannig kolefnislosun í þeim lið byggingaframkvæmda. 

Hugbúnaðurinn sem hefur haft vinnuheitið Völundur mun í framtíðinni kallast MölUndur og er það talið lýsandi fyrir framtíðarnotkun gagnagrunnsins. 

Markmið verkefnisins er að gefa notendum yfirsýn yfir framkvæmdarstaði á landinu og geti annað hvort nálgast jarðveg eða losað sig við jarðveg á nálæga verkstaði. Um er að ræðaKort af framkvæmdastöðum á Íslandi

 nýsköpunarverkefni sem snýr að því að draga úr loftslagsáhrifum  verklegra jarðvegsframkvæmda á vegum hins opinbera og stuðla að fjárhagslegu hagræði. Notendur eiga einnig að geta dregið úr grunninum upplýsingar um kolefnislosun og nýtt í græna bókhaldið.

MölUndur er samstarfsverkefni nokkurra opinberra framkvæmdaraðila en þeir eru Framkvæmdasýsla ríkisins, Vegagerðin, Veitur, Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Kópavogsbær auk Ríkiskaupa. Mikill áhugi er á verkefninu og því standa vonir til að fleiri opinberir framkvæmdaraðilar sjái sér hag í að nýta sér gagnagrunninn sem verður gjaldfrjáls fyrir notendur.