Fara í efni

Árangursríkt útboð - Ræsting HSU

Í nýlegu útboði á ræstingu fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands voru lægstu boð talsvert undir kostnaðaráætlun.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) bauð út þjónustu á ræstingu á þessu ári fyrir starfsstöðvar sínar á Selfossi og í Vestmannaeyjum og var samið við Ríkiskaup um aðstoð við útboðið.

Í aðstoð Ríkiskaupa fólst meðal annars að gera útboðsgögn, auglýsa útboðið, gera samanburð á tilboðum, samningagerð og annað í samráði við HSU. Útboð af þessari stærðargráðu er flókið og umfangsmikið og var því ákveðið að fá utanaðkomandi ráðgjafa til að vinna ákveðna þætti í útboðinu. Verksvið ráðgjafans var meðal annars fólgið í að veita sérfræðiráðgjöf varðandi ræstingu, eins og tíðni, aðstoð við gerð útboðsgagna og yfirfara flatarmál vegna ræstinga.

Tilboð voru opnuð þann 7. janúar síðastliðinn, þrjú tilboð bárust. Tilboð Sólar ehf. var lægst, um 69,9 mkr á ári og var það samþykkt.

Rekstrarkostnaður HSU vegna ræstinga á Selfossi og í Vestmannaeyjum nam samtals á árinu 2019 kr. 137.980.000. Gera má ráð fyrir að sambærilegur kostnaður ársins 2020 nemi um kr. 147.000.000. Er því um umtalsverða hagræðingu að ræða.

Sólar ehf. munu taka við þjónustunni þann 1. maí nk.