Fréttalisti

Fréttalisti
  • UT_Fjarskipti

Nýr rammasamningur um tölvur getur sparað ríkinu um 100 milljónir króna á ári

2.6.2017

Ríkiskaup hafa gert rammasamning við þrjú fyrirtæki, Advania, Nýherja og Opin kerfi um kaup á notendabúnaði fyrir stofnanir ríkisins. Búnaðurinn sem um ræðir eru borðtölvur, fartölvur, dokkur og skjáir ásamt aukahlutum. Rammasamningurinn kemur til móts við auknar áherslur ríkisins á sameiginleg innkaup stofnana og fækkun birgja. Gæði búnaðar eru tryggð skv. kröfum útboðsins og samið er um fast verð á ákveðnum búnaði.

Í útboðinu var miðað við kaup á tæplega 6 þúsund einingum á ári. Með einingum er átt við mengi ofangreinds búnaðar. Samið var um fast verð upp að 10 stk. við einn forgangsbirgja sem er Advania. Magninnkaup 11 stk. og yfir skulu hins vegar fara í örútboð meðal allra birgjanna þriggja, Advania, Nýherja og Opinna kerfa.

Í verðkörfu útboðs var 1 borðtölva, 4 mismunandi uppsetningar af fartölvum, ein dokka, og einn 24“ skjár.

Meðaltalsafsláttur frá verðlista með tilliti til vægis í verðkörfu útboðs var 41% og meðaltalsafsláttur frá kostnaðaráætlun var 24%. Kostnaðaráætlun var lesin upp á opnunarfundi þegar tilboð voru opnuð og var byggð á  síðustu verðum í sameiginlegu örútboði innan fyrri rammasamnings. Þannig má segja að náðst hafi um fjórðungi betra verð í nýja rammasamningnum. Í krónum talið er áætlaður sparnaður ríkisins tæpar 90 milljónir króna út frá kostnaðaráætlun. Áætlaður sparnaður frá verðlistaverði yrði þannig rétt rúmar 200 milljónir á ári. Allar tölur til grundvallar útreikningum eru án virðiskaupaskatts.

Auk þess bjóða allir þrír birgjarnir fastan afslátt á bilinu 10% til 25% af aukahlutum tengdum boðnum búnaði s.s. aukadrifum, músum, lyklaborðum, köplum ofl. Kaupendum er ráðlagt að kanna endanlegt verð áður en varan er keypt.

Til að forðast rugling skal það tekið fram að eldri rammasamningur náði til fleiri flokka búnaðar s.s. kerfis- og netbúnaðar auk hugbúnaðar. Allur samanburður við fyrri samning grundvallast þó eingöngu á sambærilegum vörum.

Rammasamningsútboð á þeim flokkum búnaðar og hugbúnaðar sem eftir standa eru í undirbúningi hjá Ríkiskaupum.

Sjá nánari upplýsingar um samninginn á vef Ríkiskaupa.Eldri fréttir