Fara í efni

Siðareglur

Siðareglur starfsfólks Ríkiskaupa 

  • Við sinnum starfi okkar af alúð og samviskusemi, sýnum kurteisi og lipurð, gætum réttsýni og erum ávallt tilbúin að veita aðstoð og leiðbeiningar.
  • Við leggjum okkur fram við að viðhalda faglegri hæfni og þekkingu í starfi og auka hana, okkur sjálfum og starfseminni til hagsbóta.
  • Við virðum trúnað og þagmælsku varðandi atriði sem við fáum vitneskju um í starfi okkar og skulu fara leynt en virðum jafnframt reglur um aðgang að upplýsingum og gegnsæi.
  • Við byggjum ákvarðanir á lögum, samningum, hlutlægum sjónarmiðum og jafnræði.
  • Við vinnum gegn sóun og ómarkvissri meðferð fjármuna.
  • Við gætum réttsýni við úrlausn mála og misbeitum ekki valdi okkar.
  • Við vekjum athygli viðeigandi aðila á ólögmætum ákvörðunum og athöfnum.
  • Við hvorki semjum um, né tökum á móti gjöfum, greiða eða annarri fyrirgreiðslu fyrir okkur sjálf, fjölskyldu, vini eða aðra sem tengjast okkur.
  • Við höfum virðingu og háttvísi að leiðarljósi í öllum samskiptum og látum samstarfsfólk og viðskiptavini njóta sannmælis og sanngirni.
Siðareglur starfsfólks Ríkiskaupa sem samþykktar voru fyrst í desember 2003 og voru uppfærðar í desember 2016.

Viðmið um góða starfshætti við opinber innkaup

Fjármála og efnahagsráðuneytið hefur gefið út viðmið um góða starfshætti fyrir starfsmenn sem annast opinber innkaup. Markmið þessara viðmiða er að setja fram leiðbeiningar um hvernig beri að umgangast viðskiptavini, þ.e. fyrirtæki og bjóðendur, og komast hjá hagsmunaárekstrum. 

Viðmiðin eiga jafnframt að viðhalda trausti til opinberra innkaupa og tryggja jafnræði og samkeppni á markaði. Viðmið þessi eru nánari útfærsla á almennum siðareglum starfsmanna ríkisins en innkaupastarfsmenn skulu jafnframt, eftir því sem við á, fara eftir siðareglum sem gilda á þeirra eigin stofnunum.

Viðmiðum þessum er ætlað að vera leiðbeinandi og hvetja til umhugsunar um hvað teljist góðir starfshættir. Telji einstaka stofnanir þörf á ítarlegri reglum eru þær eindregið hvattar til að setja sér slíkar reglur í samráði við starfsmenn.

Mútuþægni er refsivert brot

Ríkiskaup vekja athygli á að hver sá sem mútar opinberum starfsmanni, íslenskum eða erlendum, skal sæta fangelsi allt í allt að 4 ár skv. 109. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940  . Mútuþægni opinberra starfsmanna, innlendra og erlendra, eru refsiverð brot með allt að 6 ára fangelsisrefsingu skv. 128. gr. almennra hegningarlaga. Ísland er aðili að  OECD samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Í þeim samningi kemur fram að mútur grafi undan góðri stjórnsýslu og efnahagsþróun og raski samkeppnisskilyrðum á alþjóðavettvangi.

Nánar um aðgerðir gegn spillingu og mútubrotum

Uppfært 26. september 2022
Getum við bætt síðuna?